Umræða um gjaldfrjáls námsgögn í grunnskólum á Akureyri

Fræðsluráð Akureyrarbæjar hefur lagt til að öllum grunnskólabörnum í grunnskólum Akureyrarbæjar verði veittur hluti nauðsynlegra námsgagna (s.s. ritföng, stílabækur, límstifti, möppur og einfaldir vasareiknar) þeim að kostnaðarlausu frá og með hausti 2017. Áætlaður kostnaður er um 16 milljónir króna.  Akureyrarbær hefur undirritað samning um að verða barnvænt sveitarfélag og hefur nú hafið innleiðingu að barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Gjaldfrjáls námsgögn eru liður í því að vinna gegn mismunun barna og því að börn njóti jafnræðis þegar að námi kemur.
Bæjarráð Akureyrarbæjar hefur heimilað fræðslusviði að vinna áfram með málið og leita allra leiða til að ná sem heildstæðustu og hagstæðustu innkaupum.