Golfvallahönnuðurinn Edwin Roald hefur gefið út nýja, uppfærða teikningu af fyrirhuguðum golfvelli á Siglufirði sem nú er í byggingu og sagt var ítarlega frá í síðasta tölublaði tímaritsins Golf á Íslandi. Framkvæmdir hófust í júní síðastliðnum, en áformað er að nýi völlurinn verði tekinn í notkun sumarið 2015, sama ár og Rauðka ehf. áformar að opna nýtt og glæsilegt hótel í bænum. Bæði verkefni eru hluti af umfangsmiklu framfaraátaki Leyningsáss, sjálfseignarstofnunar sem Rauðka ehf. og Fjallabyggð hafa stofnað.

Golf hefur verið leikið á Siglufirði í fjörutíu ár, en gamli völlurinn sem liggur kringum Íþróttamiðstöðina að Hóli og meðfram eystri bökkum Hólsár verður lagður af þegar sá nýi verður tilbúinn. Nýi völlurinn, sem verður níu holur eins og sá gamli, liggur að miklu leyti í gamalli malarnámu handan árinnar. Hugmyndin með nýja vellinum er að nýta framtakið til uppgræðslu á námunni og stuðla að umbótum á lífríki svæðisins, sem sérfræðingar staðfesta að hafi skaðast umtalsvert við efnistökuna.

Mikil áhersla er lögð á að byggja upp öfluga útivistaraðstöðu fyrir almenning samhliða vellinum, enda er eftir miklu að sækjast fyrir útivistarfólk og náttúruunnendur. Skógrækin í Skarðsdal, sem setja mun mjög sérstakan svip á nýja golfvöllinn, og er eitt best geymda leyndarmál meðal norðlenskra útivistarskóga. Gerðir verða sérstakir áningarstaðir fyrir útivistarfólk, veiðifjörur og fleira. Áætlaður kostnaður við hinn nýja golfvöll nemur um rúmlega 100 milljónum króna.

Meðal annarra verkefna á vegum Leyningsáss eru endurbætur á skíðasvæðinu í Skarðsdal og ákveðnar skipulagsbreytingar í bænum sem hafa það að markmiði að fegra umhverfi og bæta ásýnd og upplifun íbúa og gesta. Mikill uppgangur er nú á Siglufirði. Veitingastaðirnir Hannes Boy og Kaffi Rauðka hafa t.d. vakið mikla athygli.  Þegar þær viðbætur, sem nú eru í bígerð, hafa litið dagsins ljós má segja að fram verði kominn áhugaverður og spennandi alhliða ferðamannastaður, eins konar „resort“ fyrir kylfinga, skíðafólk, stangveiðifólk og fleiri.

Alla fréttina og mynd af vellinum má sjá hér.

Heimild: www.kylfingur.is