Á fjórða hundrað manns taka þátt í flugslysaæfingu sem haldin verður á Akureyrarflugvelli á laugardaginn 4.maí.  Æfingin byggir á flugslysaáætlun flugvallararins og verða þátttakendur frá öllum viðbragðsaðilum á svæðinu. Isavia stendur fyrir reglubundnum æfingum af þessu tagi í samstarfi við viðbragðseiningar og ráðgjafa frá höfuðborgarsvæðinu.

Flugslysaæfingar eru almannavarnaæfingar þar sem allir viðbragðsþættir vegna flugslyss eru prófaðir, þ.m.t. slysarannsókn og úrvinnsla. Líkt verður eftir því að stórri farþegaflugvél hlekkist á við flugvöllinn. Æfðar verða björgunar- og slökkviaðgerðir, greining og aðhlynning slasaðra auk umönnunar óslasaðra og aðstandenda. Sérstaklega reynir á virkni áætlunarinnar, samhæfingu vegna flutnings á slösuðum, boðunarkerfi, stjórn, samhæfingu, fjarskipti, rannsókn á vettvangi og fleira.

Margar starfseiningar taka þátt í æfingunni, starfsfólk Isavia á Akureyrarflugvelli, lögregla, slökkvilið, sjúkraflutningaaðilar, Landhelgisgæslan, starfsfólk fjórðungssjúkrahússins, björgunarsveitir, almannavarnir, Rauðikrossinn, prestar, flugfélög og rannsóknaraðilar auk annarra og hefur undirbúningur staðið um nokkurra mánaða skeið.

Heimild: isavia.is