Snjóflóðahrinan á Norðurlandi olli miklum truflunum á samgöngum þó ekki kæmi þar til rýmingar á húsum. Meðal annars féll stórt snjóflóð úr Stofugili á veginn milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar og var það um 100 m breitt og 3-4 m að þykkt á veginum og náði lengra, 50 m niður fyrir veginn. Annað stórt flóð féll yfir veginn nokkru norðar á þekktum snjóflóðastað við Sauðanes og féll fram í sjó. Stór snjóflóð féllu einnig í Fnjóskadal og víðar á Norðurlandi.

Hlýnandi veður í lok hrinunnar olli svo hættu á snjóflóðum í meira en sólarhring eftir að veðrið gekk niður og þurfti að rýma nokkur hús aftur að kvöldi 2. janúar 2013 af þeim sökum en rýmingunni var aflétt morguninn eftir.

Heimild: vedur.is