Um 1500 gestir á Trilludögum

Trilludagar voru haldnir á Siglufirði í þriðja sinn um nýliðna helgi. Talið er að um 1500 manns hafi lagt leið sína niður á höfn þar sem helsta dagskrá hátíðarinnar fór fram.  Þóttu þeir takast einstaklega vel og var góð stemning á bryggjunni allan daginn.  Fjallabyggð greinir frá þessu á vef sínum.

Átta eldhressir trillukarlar sá um siglingarnar en gestum hátíðarinnar var boðið að sigla út á fjörðinn þar sem rennt var fyrir fisk. Þegar í land kom var fólki boðið að grilla aflann og stóðu vaskir Kiwanismenn vaktina við flökun og á grillinu. Heitt grænmeti var borið fram með fisknum í boði Kjörbúðarinnar á Siglufirði. Gafst þetta mjög vel og var þátttaka framar öllum vonum en um 500 manns fóru í siglingu og um 800 manns borðuðu nýveiddan fisk. Milli klukkan 16:00 og 18:00 var svo öllum boðið til grillveislu þar sem grillaðar voru pylsur í boði Kjörbúðarinnar.

Myndir koma af vef Fjallabyggðar og eru teknar af Vilmundi Ægi Eðvarðssyni.

Mynd: Vilmundur Ægir Eðvarðsson

Mynd: Vilmundur Ægir Eðvarðsson