Tvö ár frá opnun Ljóðasetursins á Siglufirði

Það var hinn 8. júlí 2011 sem frú Vigdís Finnbogadóttir lýsti Ljóðasetur Íslands á Siglufirði formlega opið við hátíðlega athöfn. Á Ljóðasetrinu geta gestir kynnt sér helstu strauma og stefnur í íslenskum kveðskap, skoðað fjölda merkra ljóðabóka sem og myndir af ljóðskáldum og ýmislegt annað sem tengist íslenskri ljóðlist. Á setrinu er veglegt safn íslenskra ljóðabóka og þar er hægt að kaupa notaðar ljóðabækur. Síðast en ekki síst er notaleg og lifandi stemning á setrinu og boðið er upp á lifandi viðburði dag hvern yfir sumartímann auk þess sem tekið er á móti hópum með leiðsögn, ljóðalestri og söng allt árið um kring.

Á þessum tveimur árum hafa nær 3000 gestir lagt leið sína í setrið og þar hafa farið fram um 60 viðburðir. Fjöldi ljóðskálda og annarra listamanna hafa komið þar fram og má þar t.d. nefna: Þórarin Eldjárn, Sigurð Pálsson, Ingunni Snædal, Aðalstein Ásberg Sigurðsson, Hörð Torfason, Sigurð Skúlason, Ragnar Inga Aðalsteinsson, Elfar Loga Hannesson, Hallgrím Helgason og Ara Trausta Guðmundsson. Einnig hefur setrið verið vettvangur fyrir siglfirska listamenn að koma sínu efni á framfæri og koma heimamenn reglulega þar fram. Setrið hefur einnig tekið þátt í stærri verkefnum s.s. Eyfirska safnadeginum, Listgöngu Ferðafélags Siglufjarðar, hátíðinni List án landamæra, hátíð til heiðurs sr. Bjarna Þorsteinssyni og aðrir viðburðir sem tengjast ljóðlist hafa farið þar fram. Auk þessa hefur verið lesið og sungið úr verkum fjölda ljóðskálda og fjallað um lífshlaup þeirra.

Ljóðasetrið stendur einnig fyrir ljóðahátíðinni Glóð í samstarfi við Ungmennafélagið Glóa á Siglufirði. Hátíðin hefur verið haldin á haustin ár hvert frá árinu 2007 og stendur í þrjá daga. Þar koma fram þjóðþekkt skáld auk heimamanna og lögð er sérstök áhersla á að virkja börn til góðra ljóðaverka. Á þessum sex árum sem hátíðin hefur verið haldin hafa verið lesin ljóð fyrir rúmlega 2000 manns og meðal gestaskálda má nefna: Einar Má Guðmundsson, Sigurbjörgu Þrastardóttur, Kristján Kristjánsson, Þórarin Eldjárn, Margréti Lóu Jónsdóttur, Inga Steinar Gunnlaugsson, Aðalstein Ásberg og Ingunni Snædal.

Það er Félag um Ljóðasetur Íslands sem stendur að rekstri setursins og hefur það notið velvildar nokkurra aðila til að gera rekstur þess mögulegan þar sem sjálfsaflafé er takmarkað. Má þar sérstaklega nefna Sparisjóð Siglufjarðar, Fjallabyggð og Menningarráð Eyþings. Ekki má gleyma því að öll vinna á setrinu er unnin í sjálfboðavinnu, annars gengi dæmið ekki upp.

Aðgangur að Ljóðasetrinu er ókeypis og er fólk hvatt til að líta þar inn og eiga góðar og notalegar stundir. Opið er kl. 14.00 – 17.30 alla daga í sumar og lifandi viðburðir eru kl. 16.00.  Hægt er að fylgjast með starfseminni og viðburðum á setrinu í gegnum facebook síðu þess og/eða heimasíðu www.123.is/ljodasetur

Texti: innsent efni.