Atli Rúnar Halldórsson, blaðamaður og rithöfundur, var á ferð Ólafsfirði í tilefni af útkomu bókar sem hann skráði um prestshjónin í Ólafsfirði árunum 1908-1924, Maríu Torfadóttur og Helga Árnason. Svarfdælasýsl forlag gefur út. Hann skráði líka sögu Sjómannafélags Ólafsfjarðar og sama forlag gaf hana út í júní sl. í samvinnu við Sjómannafélagið. Atli Rúnar á forlagið ásamt systkinum sínum frá Jarðbrú í Svarfaðardal.

„Ég kveð Ólafsfjörð og Ólafsfirðinga glaður og þakklátur í sinni sem fyrr og vona að heimsóknin og nýja bókin stuðli að því að Helgi Árnason prestur fái þann sess sögu byggðarlagsins sem honum ber.

Ég á afskaplega góðar minningar frá því við gáfum út sögu Sjómannafélags Ólafsfjarðar í júní 2023 og frá samstarfinu yfirleitt við þann góða og öfluga félagsskap. Nú er það séra Helgi og merkileg tilviljun er það og skemmtileg að ég hafi sem höfundur verið með tvær bækur í takinu samtímis sem báðar tengjast Ólafsfirði.“

 

„Við Ægir Ólafsson sjómannaleiðtogi gerðum með okkur gagnkvæmt bissnessbandalag. Hann verður með báðar bækurnar til sölu á skrifstofu Sjómannafélag Ólafsfjarðar og ég verð með báðar bækurnar til sölu hjá mér í Reykjavík – með heimsendingarþjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Áhugasamir hafi samband í atli@sysl.is eða 899 8820.

Við félagar og fyrrverandi bekkjarbræður í Gagnfræðaskóla Ólafsfjarðar erum orðvarir menn og verðum seint sakaðir um ýkjur með því að fullyrða að bækurnar okkar séu aldeilis upplagðar sem gjafir sem gleðja og fræða!“

– Hvernig datt þér í hug að sökkva þér niður í sögu prestsfjölskyldu sem starfaði í Ólafsfirði fyrir meira en einni öld?

„Svo vill til að Helgi er langafi Guðrúnar Helgadóttur, eiginkonu minnar, og sjálfur er ég tengdur Ólafsfirði. Mamma var fædd og uppalin Ólafsfirðingur og ég var þar tvo vetur í skóla. Ég hef því sterkar taugar til þessa samfélags.

Upphaflega ætlaði ég að taka saman bækling um fjölskyldusögu Helga og Maríu fyrir sjálfan mig og afkomendur prestshjónanna en verkefnið óx og blés út á alla kanta í höndunum á mér. Úr varð heilmikill bók. Væri þetta tónverk væri dvöl prestshjónanna í Ólafsvík 1882-1908 túlkuð í dramatískum köflum en dvölin í Ólafsfirði á mun rólegri nótum.

Hjónin fluttu norður alveg búin á því eftir barnamissi og fleiri svipleg dauðsföll nákominna. Presturinn sætti á sama tíma tilefnislausum ofsóknum sýslumannsins í Stykkishólmi. Ólafsfirðingar björguðu andlegri og líkamlegri heilsu þeirra. Það var þeim lífsnauðsyn að komast í annað umhverfi.

Ég skynja greinilega að sagan vekur áhuga og ekkert skilyrði er að þekkja til prestsfjölskyldunnar, Ólafsvíkur eða Ólafsfjarðar. Það merkti ég til að mynda á dögunum þegar ég talaði yfir stórum hópi í safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju og fékk líka mikinn hljómgrunn þar. Þessa sögu varð einfaldlega að segja.“