Trilludagar endanlega slegnir af borðinu í ár en fjármunir nýttir til undirbúnings

Fjallabyggð lét kanna möguleikann á því að halda Trilludaga síðar í sumar en niðurstaðan var sú að ekki væri forsvaranlegt að halda hátíðina þann 24. júlí nk. nema öllum samkomutakmörkunum hafi verið aflétt og 1-2 metra reglu hafi verið sleppt. Það er álit aðila að ekki sé forsvaranlegt að hefja undirbúning að svo stórri hátíð sem svo verði jafnvel á endanum aflýst.

Trilludagar er fjölskylduhátíð sem hefur vaxið gríðarlega milli ára. Hátíðin var haldin á Siglufirði, í fjórða sinn, þann 27. júlí 2019 og er talið að um 2.500 – 3.500 manns hafi lagt leið sína niður á höfn og notið þess sem í boði var.

Bæjarráð Fjallabyggðar hefur samþykkt endanlega að aflýsa Trilludögum þetta árið og að fjármunum sem ætlað var í hátíðina verði varið að hluta til undirbúnings Trilludaga árið 2022 og með kaupum á fleiri björgunarvestum og veiðistöngum.

Fjallabyggð ætlar einnig að reyna bæta við “pop up” viðburðum í sumar fyrir íbúa og gesti sveitarfélagsins þegar vel viðrar og sóttvarnir leyfa, t.d. með lifandi tónlist, bryggjuballi og fleiru.