Toppslagur á Ólafsfjarðarvelli

Toppliðin í 3. deild karla í knattspyrnu mætast á Ólafsfjarðarvelli í dag kl. 16:00. Knattspyrnufélag Fjallabyggðar tekur á móti Kórdrengjum sem eru í efsta sæti fyrir þennan leik með eins stigs forystu á KF. Bæði liðin hafa átt mjög gott tímabil og eru við það að tryggja sér sæti í 2. deildinni að ári. Fyrri leikur liðanna fór fram á Framvellinum í júní í sumar og var það mjög köflóttur leikur sem KF vann 1-2. Kórdrengir sköpuðu sér mikið að færum í þeim leik en Halldór markmaður KF átti frábæran leik og hélt þeim algerlega á lífi.  Það má því búast við jöfnum og spennandi leik í dag og eru stuðningsmenn hvattir til að fjölmenna á leikinn.

Upphitun fyrir leikinn hefst kl. 13:00 á Brimnes hótel fyrir stuðningsmenn KF og verða grillaðir hamborgarar og boðið upp á andlitsmálun.

KF getur með sigri komist í efsta sæti deildarinnar en jafntefli gæti einnig komið þeim á toppinn þar sem markatalan er betri hjá KF. Kórdrengir geta með sigri náð 4 stiga forystu í deildinni og gæti verið erfitt fyrir KF að vinna það upp í síðustu umferðunum. Liðin hafa mjög sambærilegan árangur í sumar, hafa unnið 14 leiki af 18 og hafa fengið á sig lítið af mörkum. Mikið þarf að gerst ef þessi tvö lið verða ekki í 2. deildinni á næsta ári þegar aðeins fjórir umferðir eru eftir af mótinu.

Kórdrengir eru taplausir á útivelli í sumar, hafa unnið 7 leiki og gert 2 jafntefli. KF hefur hinsvegar aðeins tapað einum heimaleik í sumar, unnið 7 leiki og gert eitt jafntefli.

Nánar verður greint frá leiknum hér á vefnum þegar úrslit liggja fyrir.

Kórdrengir-KF
Mynd: Héðinsfjörður.is/ Magnús Rúnar Magnússon
Kórdrengir-KF
Mynd: Héðinsfjörður.is/ Magnús Rúnar Magnússon