Toppbarátta á Ólafsfjarðarvelli – Umfjöllun í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty

Umfjöllun um leiki KF eru í boði Siglufjarðar apóteks og ChitoCare Beauty sem eru aðalstyrktaraðilar, smellið á tenglana til að sjá vöruframboðið og þjónustu þeirra á netinu.

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar mætti Völsungi frá Húsavík á Ólafsfjarðavelli í 15. umferð Íslandsmótsins í knattspyrnu. Mikið var undir í leiknum enda um toppbaráttuslag að ræða. Völsungur var í 2. sæti fyrir leikinn með 26 stig og höfðu unnið síðustu 5 deildarleiki. KF var í 4. sæti með 24 stig og voru ósigraðir í síðustu fjórum deildarleikjum. Sæþór Olgeirsson leikmaður Völsungs er markahæsti maður deildarinnar með 15 mörk í 13 leikjum. Þá hefur hann gert 6 mörk í 2 deildarleikjum í sumar og hefur átt mjög gott tímabil. Þetta er klárlega leikmaður sem KF þurfti að vakta vel í þessum leik. Oumar Diouck er markahæsti maður KF með 9 mörk í deildinni  í 13 leikjum og er þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar fyrir þennan leik.

Mikil stemning hefur verið í Völsungsliðinu undanfarið og þeir voru komnir til Ólafsfjarðar til að sækja þrjú stig. Liðin mættust í byrjun sumars á Húsavík og vann Völsungur leikinn 2-1. Í síðustu 16 viðureignum liðsins í deild og bikar þá er árangur liðanna afar jafn. KF hefur unnið 7 leiki, Völsungur 7 leiki og 2 hafa endað sem jafntefli. KF hefur skorað 29 mörk en Völsungur 27 í síðustu 16 leikjum liðanna á síðustu 10 árum.

Það voru gestirnir sem byrjuðu leikinn af krafti og nýttu færin sín vel. Völsungur komst yfir á upphafsmínútum fyrri hálfleiks með marki frá fyrirliðanum Bjarka Baldvinssyni og rúmum tíu mínútum síðar komust þeir í 0-2 eftir að Sæþór Olgeirsson átti fast skot í teignum. Þrátt fyrir þessi tvö mörk þá var KF meira með boltann og áttu fleiri sóknir, en nýtu ekki færin nógu vel í fyrri hálfleik. Staðan var því 0-2 fyrir gestina í hálfleik.

Völsungur gat bakkað eftir þessi tvö mörk og voru KF strákarnir meira með boltann og fengu fleiri sóknir. Þegar tæpar 10 mínútur voru eftir af leiknum minnkaði KF muninn í 1-2 með marki frá Sachem Wilson. KF hélt áfram að sækja og leituðu að jöfnunarmarkinu.

Í uppbótartíma kom svo jöfnunarmarkið sem beðið hafði verið eftir, staðan 2-2 og lítið eftir af uppbótartíma. Það var Oumar Diouck sem gerði síðara mark KF.

Lokatölur í leiknum urðu 2-2. KF kom til baka í síðari hálfleik og voru óheppnir að nýta ekki fleiri færi í leiknum eins og hann þróaðist. Kærkomið stig í toppbaráttunni.