Tónlistarhátíðin Berjadagar fer fram í Ólafsfirði 17.-19. ágúst. Á hverju kvöldi verða klassískir tónleikar og ýmsir viðburðir í boði á daginn. Dagskráin er fyrir alla aldurshópa og ókeypis aðgangur fyrir 18 ára og yngri. Opnunartónleikarnir „Líttu sérhvert sólarlag“ verða í Ólafsfjarðarkirkju á fimmtudagskvöldinu þar sem flutt verða þekkt ljóð og aríur. Á föstudagskvöldinu verða kammertónleikarnir „Reimleikar” í Ólafsfjarðarkirkju og Stelpurófan rappar fyrir börn og unglinga á laugardeginum. Gestir eru hvattir til að tryggja sér miða á „Tapas og tónlist í Tjarnarborg“ sem fram fer laugardagskvöldið 19. ágúst í Menningarhúsinu Tjarnarborg þar sem gestir munu gæða sér á tapasréttum og ljá suðrænni tónlist eyra. Bjarni Frímann Bjarnason kemur fram ásamt glæsilegum hópi tónlistarmanna og söngvara. Sérstakur gestur hátíðarinnar að þessu sinni er þýska söngstjarnan Frédérique Friess. Klykkt er út með Berjamessu og gönguferð sunnudaginn 20. ágúst.