Tónleikar í Siglufjarðarkirkju á laugardaginn

Laugardaginn 18. júlí kl. 17.00 munu tveir söng- og hljóðfærahópar leiða saman hesta sína í Siglufjarðarkirkju: Voces Thules og Gadus Morhua. Eyjólfur Eyjólfsson leikur og syngur í báðum hópum, en hann starfaði um tíma í Þjóðlagasetri sr. Bjarna Þorsteinssonar.

Sögusvið tónleika Voces Thules hópsins verður 13. öld eða Sturlungaöldin. Skyggnst verður inn í hugarheim, trúarlíf og draumfarir fólks á tímum ósættis og stríðsátaka þar sem Örlygsstaðabardagi er í forgrunni. Meginhluti af efni tónleikanna er fengið úr Sturlungu, en auk þess verða fluttir þættir úr Þorlákstíðum og öðrum íslenskum miðaldahandritum, erindum úr Eddukvæðum ásamt vísum úr rímum af Þórði Kakala eftir Gísla Konráðsson.

Sönghópinn skipa þeir Eyjólfur Eyjólfsson, Eggert Pálsson, Einar Jóhannesson, Eiríkur Hreinn Helgason og Sigurður Halldórsson. Gestir hópsins á þessum tónleikum verður tríóið Gadus Morhua en það skipa Eyjólfur Eyjólfsson sem syngur og leikur á langspil og flautu, Björk Níelsdóttir söngkona sem leikur einnig á langspil og Steinunn Arnbjörg Stefánsdóttir sellóleikari.

Image preview