Tónleikar í Akureyrarkirkju

Kammerkórinn Ísold heldur tónleika fimmtudaginn 7. apríl kl 20.00 í Akureyrarkirkju ásamt hljómsveit.  Sérstakur gestur: Stúlknakór Akureyrarkirkju.

Hér verður meðal annars tekið “Is it true” í glænýrri útsetningu Eddu Bjarkar Jónsdóttur söngkonu, allt frá hressilegum júróvision lögum að rólegum og fallegum vögguvísum eftir konur. Óvæntir slagarar verða líka fluttir í skemmtilegum útsetningum. Heyr mína bæn verður á sínum stað ásamt Þér við hlið sem mun skapa fallega stemningu í fallegri kirkju.Verið hjartanlega velkomin!

Aðgangur ókeypis en tekið er við frjálsum framlögum.

Kammerkórinn Ísold er sönghópur stúlkna og ungra kvenna á aldrinum 17-24 ára. Æfingar eru reglulegar og skipulagðir eru tónleikar í samstarfi við aðra sönghópa ásamt því að fara sem víðast og syngja sem oftast stuttar efnisskrár fyrir fjölskrúðuga áheyrendahópa. Ísold hefur sungið á nokkrum tónleikum í Hofi í vetur, m.a. með rokkhljómsveitinni Dimmu, söngkonunum Kristjönu Arngrímsdóttur og Gretu Salóme, og á jólatónleikunum Norðurljósin í desember.

Í Stúlknakór Akureyrarkirkju eru 18 stúlkur á aldrinum 14-17 ára. Kórinn tekur þátt í helgihaldi í Akureyrarkirkju auk þess að syngja reglulega á tónleikum með ýmsum listamönnum, ásamt því að halda sjálfstæða tónleika. Stúlknakórinn hefur árum saman verið áberandi í sönglífi bæjarins. Hann hefur sungið á Ráðhústorgi þegar kveikt er á jólatrénu, í Hofi með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, á Glerártorgi á aðventunni og víðar.