Töluverðar skemmdir vegna vatnavaxta á Norðurlandi

Töluverðar skemmdir hafa orðið á vegamannvirkjum á Norðurlandi vegna gríðarlegra vatnavaxta síðustu dægur. Vegur í Fnjóskadal er í sundur og lokað á tveimur öðrum stöðum, víðast er hægt að fara aðrar leiðir þótt taka þurfi krók. Nokkrar skemmdir orðið á rofvörnum. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar í dag.

Í Fnjóskadal er vegurinn í sundur og unnið að því að verja brú skammt frá Illugastöðum.

Eyjafjarðarbraut eystri er lokuð á brúnni við Möðruvelli.

Við Þverá á Eyjafjarðarbraut eystri grefst frá steyptum stokki en umferð er um hjáleið yfir eldri brú, en einungis léttari umferð, mjólkurbíllinn þarf að taka á sig lengri krók. Það má reikna með að nokkurn tíma muni taka að gera við þegar sjatnar og því verður þörf á þessum hjáleiðum næstu viku eða vikur.

Þá hafa skemmdir orðið víða á rofvörnum enda má reikna með að þessi flóð núna séu með þeim mestu sem verða við þessar aðstæður og gerast líklega eingöngu á 50-100 ára fresti.

Vegagerðin metur aðstæður og fylgist með og verður unnið að viðgerðum eins hratt og mögulegt er, en mislanga tíma mun taka að koma vegakerfinu í samt lag og fer eftir alvarleika skemmdanna sem ekki eru komnar í ljós að fullu hversu umfangsmiklar eru.

Heimild og myndir: Vegag.is