Þann 22. febrúar síðastliðinn hófst byrjendanámskeið í íslensku í húsnæði Einingar-Iðju á Siglufirði. Kennt verður fram á vorið, tvisvar í viku frá kl. 08:30-10:30, eða í tvo tíma í senn. Áhugavert er að námskeiðið er kennt á dagvinnutíma, sem má rekja til þess að bæjarráð Fjallabyggðar samþykkti í september á síðasta ári að gera starfsfólki Fjallabyggðar, sem á lögheimili í sveitarfélaginu, kleift að sækja íslenskunámskeiðin á vinnutíma.
Kennari á þessu námskeiði er Inga Þórunn Waage, sem hefur kennt á íslenskunámskeiðum í SÍMEY undanfarin ár, bæði fyrir byrjendur og lengra komna. Tíu manns eru á námskeiðinu, bæði starfsmenn Fjallabyggðar og fyrirtækja í sveitarfélaginu.
Fjallabyggð hefur lagt til aukinn stuðning fyrir einstaklinga af erlendum uppruna sem starfa hjá sveitarfélaginu og með lögheimili þar. Starfsfólk Fjallabyggðar sem situr námskeiðið verður ekki fyrir launaskerðingu og sveitarfélagið styður einnig við námskeiðiskostnað á móti stéttarfélögum.
Því er einnig beint til annara atvinnurekenda í Fjallabyggð að auðvelda starfsmönnum að sækja námskeiðið.
Frá þessu er greint á vef Símey ásamt ljósmynd.