Breska flugfélagið Titan Airways mun sjá um að flytja farþega á vegum bresku ferðaskrifstofunnar Super Break frá Bretlandi til Akureyrar næsta vetur. Flugmenn þess hafa þegar hafið þjálfun í flughermum og munu koma til Akureyrar til æfinga áður en flogið verður með fyrstu farþegana. Þá ætlar Air Iceland Connect að hefja tengiflug að nýju í október á þessu ári, frá Akureyri til Keflavíkur. Þetta er meðal þess sem kom fram á vorráðstefnu Markaðsstofu Norðurlands og Flugklasans Air 66N sem fór fram í Hofi á Akureyri í gær.
Arnheiður Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands, hafði þetta að segja um tíðindin af tengifluginu: „Þetta eru mjög ánægjulegar fréttir, og við erum sérstaklega ánægð með að flugfélagið sá tækifæri til þess að setja þessi flug upp aftur þar sem þau hafa nýst bæði heimafólki og ferðaþjónustu mjög vel. Nú er okkar markmið að vinna vel með Air Iceland Connect að markaðssetningu, svo að þetta tengiflug geti orðið til framtíðar.“
Nánari upplýsingar: https://www.northiceland.is/is/markadsstofan/frettir-af-innra-starfi/frettir/titan-airways-flygur-fyrir-superbreak-tengiflug-til-keflavikur-heldur-afram