Tíndu 100 kg af könglum fyrir nýjum snjótroðara

Um 50 manns voru samankomnir í Laugalandsskógi á Þelamörk um helgina til að safna könglum úr stafafuru. Skógræktarfélag Eyfirðinga er að safna fé upp í nýjan snjótroðara sem komstar um 35 milljónir. Alls hafa safnast rúmlega 3,6 milljónir og stefnt er að því að söfnun ljúki í febrúar 2022.
Um 100 kg af könglum söfnuðust sem er einn tíundi af því heildarmagni sem Skógræktin þarf í ár. Þessi hundruð kíló af hreinsuðum og vel völdum könglum gefur 200.000 kr í snjótroðarasöfnunina hjá Skógræktarfélagi Eyfirðinga.
Viðstaddir fengu fræðslu um mismunandi kvæmi stafafuru og hvernig á að þekkja tveggja ára köngul. Svo var haldið út skóg þar sem búið var að fella stöku tré en annars var hægt að teygja sig í greinar og tína. Veðrið var milt, glatt var á hjalla og afraksturinn framar vonum.
Myndir með frétt koma frá Skógræktarfélagi Eyfirðinga.
Myndir: Skógræktarfélag Eyfirðinga.