Tindastóll vann KFG

Tindastóll og KFG léku á Sauðárkróksvelli í gær í 16. umferð 2. deildar karla í knattspyrnu. Tindastóll berst fyrir lífi sínu í deildinni og þurfti nauðsynlega á öllum stigunum að halda, en liðið er í neðsta sæti deildarinnar og hafði aðeins unnið einn leik í sumar í deildinni. KFG voru í næstneðsta sæti fyrir leikinn og gátu með sigri komist úr fallsæti.

Stólarnir byrjuðu leikinn af krafti og settu tóninn á fyrstu mínútum leiksins. Arnar Ólafsson skoraði strax á 5. mínútu og kom heimamönnum í 1-0, hans fjórða mark í deildinni í sumar. Aðeins tæpum 10 mínútum síðar skoraði Tindastóll aftur með marki frá Kyen Nicholas, hans þriðja mark í fjórum leikjum og kom Stólunum í 2-0. Staðan var svo 2-0 í hálfleik þegar dómarinn flautaði til leikhlés og heimamenn í góðri stöðu.

Tindastóll gerði tvær skiptingar um miðjan síðari hálfleik, en þegar um 8 mínútur voru eftir af leiktímanum þá skoruðu heimamenn sitt þriðja mark þegar Kyen Nicholas skoraði sitt annað mark í leiknum. Þjálfari Tindastóls gerði svo tvær skiptingar til viðbótar á síðustu mínútum leiksins og lét ferska menn inná. Tindastóll vann leikinn nokkuð örugglega 3-0 og unnu sinn annan sigur í sumar.

Stólarnir eru nú sex stigu frá KFG og 8 stigum frá öruggu sæti í deildinni þegar 6 leikir eru eftir. Liðið leikur næst við Leikni í Fjarðabyggðarhöllinni, miðvikudaginn 21. ágúst kl. 17:30.