Tindastóll úr fallsæti eftir stórsigur

Tindastóll heimsótti Dalvík/Reyni í 2. deild karla í knattspyrnu en liðin mættust á Dalvíkurvelli í dag. Fyrir leikinn var Dalvík/Reynir fallið og Tindastóll í næst neðsta sæti. Tindastóll komst yfir í upphafi leiks og leiddu 0-1 í hálfleik. Fannar Freyr Gíslason hjá Tindastóli gerði svo þrennu í síðari hálfleik og gerði út um leikinn á tuttugu mínútna kafla. Tindastóll bætti svo við lokamarkinu á lokamínútum leiksins og fór leikurinn 0-5 fyrir Tindastól sem komust með þessu úr fallsæti þegar einni umferð er ólokið. Tindastóll á heimaleik gegn Aftureldingu í lokaumferðinni en liðið er nú aðeins einu stigi frá fallsæti og þurfa því fleiri stig til að tryggja sig.