Tindastóll með sterka stöðu í 3. deild

Tindastóll á Sauðárkróki féll í 3. deild karla í knattspyrnu á síðustu leiktíð, en vel gengur hjá þeim í ár og eiga þeir góðan séns að fara beint upp aftur, ólíkt Dalvík/Reyni sem féll einnig með þeim í fyrra. Tindastóll er í efsta sæti með 27 stig eftir 10 leiki, unnið 9 og tapað aðeins einum. Vel hefur gengið að skora í ár, en Stólarnir hafa skorað 27 mörk og fengið aðeins á sig 7. Eini tapleikurinn hingað til kom í fyrstu umferðinni gegn Vængjum Júpíters. Tindastóll lék í gærkvöldi aftur við Vængi Júpíters á Sauðárkróksvelli, og unnu örugglega 4-1.  Markahæstu menn Tindastóls eru Kenneth Hogg með 9 mörk, Ragnar Þór Gunnarsson  með 7 mörk og Benjamín Jóhannes Gunnlaugarson með 6 mörk.