Tindastóll lék í dag við KFS á útivelli í lokaumferð 3. deild karla í knattspyrnu og þurfti liðið sigur til að eiga möguleika að halda sér uppi ásamt hagstæðum úrslitum úr öðrum leikjum. Önnur lið sem gátu fallið voru ÍH og Einherji, en ÍH vann sinn leik og bjargaði sér frá falli en Einherji gerði aðeins jafntefli í sínum leik og féllu með Tindastól.

KFS hafði verið á góðu skriði undanfarna leiki og var því búist við erfiðum leik fyrir Stólana.

Tindastóll byrjaði leikinn vel og skoruðu strax á 4. mínútu. Heimamenn svöruðu með tveimur mörkum áður en Stólarnir jöfnuðu aftur leikinn á 43. mínútu í 2-2.  Í uppbótartíma fyrri hálfleiks skoraði KFS aftur og voru þeir því með góða stöðu 3-2 í hálfleik.

KFS komst í 4-2 á 70. mínútu áður en Stólarnir minnkuðu muninn í 4-3 á 72. mínútu. Það voru lokatölur leiksins og er því lið Tindastóls fallið í 4. deild.

Raul Sanjuan Jorda gerði þrennu fyrir Tindastól í þessum leik.

Það er mikið uppbyggingarstarf í vændum hjá Tindastóli, og liðið hlýtur að leggja allt í sölurnar að komast aftur í efri deildir Íslandsmótsins í knattspyrnu.