Tilnefnd til Íþróttamanns KA

Handknattleiks-, blak-, og knattspyrnudeild Knattspyrnufélags Akureyrar hafa tilnefnt þau Birtu Fönn Sveinsdóttur, Ævar Inga Jóhannesson og Ævarr Frey Birgisson til Íþróttamanns KA árið 2015. Úrslit úr kjöri um Íþróttamann KA verða kunngjörð á afmælishátíð KA sem fer fram sunnudaginn 10. janúar í KA-heimilinu.

Birta er 19 ára gömul en hún er markahæsti leikmaður liðsins á þessu tímabili. Birta er leiðtogi innan sem utan vallar hjá KA/Þór og hefur stimplað sig inn sem lykilmaður liðsins. Hún er meðal annars í liði fyrri umferðar yfirstandandi tímabils sem þjálfarar og starfsfólk liða völdu. Hún var á árinu valin í Afrekshóp HSÍ auk þess að spila með U19 ára landsliðinu í undankeppni EM.

Ævar Ingi er fæddur í janúar 1995 og verður því 21 árs núna eftir nokkrar vikur.  Sumarið 2015 var Ævar algjör lykilmaður í lið KA í fyrstu deildinni og skoraði hann 12 mörk í deild og bikar fyrir liðið í sumar.  Í lok sumars var Ævar valinn í lið fyrstu deildarinnar af þjálfurum og fyrirliðum sem segir margt um styrk hans í sumar.  Ævar Ingi var einnig í algjöru lykilhlutverki hjá U-21 árs landsliði Íslands en nú þegar undankeppni EM 2017 er hálfnuð er Íslenska landsliðið á toppi síns riðils á undan þjóðum eins og Frökkum og Skotum.

Ævarr Freyr Birgisson er fæddur 16. nóvember 1996. Hann hefur lagt stund á blakíþróttina allt frá sex ára aldri. Hann hefur náð mjög góðum árangri í gegnum tíðina en hann spilar nú með meistaraflokki karla og hefur verið einn af lykilmönnum liðsins undanfarin ár.  Á leiktímabilinu 2014-2015 lék hann í meistaraflokki og lönduðu hann og félagar hans Bikarmeistaratitilinum 2015. Í Mizunodeild BLÍ náðu þeir í 4. sætið og þar með í undanúrslit til Íslandsmeistaratitils. Við uppgjör tímabilsins hjá BLÍ var hann tilnefndur í lið ársins sem besti kantur, fyrir besta móttöku sem og efnilegasti leikmaðurinn.

Ævarr varð í 6. sæti yfir stigahæstu leikmenn Mizunodeildarinnar á síðasta leiktímabili. Það sem af er leiktímabilinu 2015-2016 er hann í 2. sæti yfir stigahæstu leikmenn deildarinnar, bæði í heildarstigafjölda sem og í sóknarstigum. Einnig er hann í 3. sæti yfir bestu móttöku.

Aðrir Íþróttamenn KA:

 • 2014 Martha Hermannsdóttir (handbolti)
 • 2013 Birta Fönn Sveinsdóttir (handbolti)
 • 2012 Alda Ólína Arnarsdóttir (blak)
 • 2011 Helga Hansdóttir (júdó)
 • 2010 Birna Baldursdóttir (blak)
 • 2009 Piotr Slawomir Kempisty (blak)
 • 2008 Matus Sandor (fótbolti)
 • 2007 Davíð Búi Halldórsson (blak)
 • 2006 Bergþór Steinn Jónsson (júdó)
 • 2005 Jónatan Þór Magnússon (handbolti)
 • 2004 Arnór Atlason (handbolti)
 • 2003 Andrius Stelmokas (handbolti)
 • 2002 Andrius Stelmokas (handbolti)
 • 2001 Vernharð Þorleifsson (júdó)
 • 2000 Guðjón Valur Sigurðsson (handbolti)

kalogo

Heimild: ka.is