Bæjarstjórn Fjallabyggðar samþykkti á fundi sínum í dag þann 18. maí eftirfarandi tillögu starfsfólks um samþættingu á skóla- og frístundastarfi í Fjallabyggð.
- Samkvæmt samþykkt bæjarstjórnar frá 21. apríl 2017 verður 1.-5. bekk grunnskólans kennt í húsnæði skólans á Siglufirði og 6.-10. bekk í húsnæði skólans í Ólafsfirði.
- Starfshópurinn leggur til að kennsla barna í 1.-5. bekk hefjist kl. 8:30. Lýkur þá kennslu 1.-4. bekkjar kl. 13:30 og kennslu 5. bekkjar kl. 14:30.
- Starfshópurinn leggur til að skólabíll fari frá Ólafsfirði kl. 8:05 og að boðið verði upp á gæslu fyrir nemendur 1.-5. bekkjar í skólahúsnæði á Siglufirði frá kl. 8:00. Þar verði boðið upp á hafragraut fyrir nemendur 1.-5. bekkjar, foreldrum að kostnaðarlausu, áður en kennsla hefst. Foreldrar skrá börn sín í morgunmat á Mentor.
- Að loknum skóladegi 1.-4. bekkjar taki við skipulagt íþrótta- og tómstundastarf sem kallað verður Frístund og varir frá kl. 13:30 til 14:30.
- Í upphafi skólaárs og við áramót gefst nemendum 1.-4. bekkjar kostur á að skrá sig í Frístund og velja á milli mismunandi valkosta í íþrótta- og tómstundastarfi.
Markmið með Frístund
- Að efla og styðja við félagsleg tengsl og þroska nemenda.
- Að jafna möguleika nemenda til að stunda tómstundastarf.
- Að allir nemendur hafi aðgang að félagsskap að loknum skóladegi.
- Að gefa nemendum kost á að sækja íþróttaæfingar og tónlistarskóla í beinu framhaldi af skóladegi.
- Að a.m.k. 90% nemenda nýti sér frístund að loknum skóladegi.
Leiðir að markmiðum
- Sett verður upp skipulag að Frístund í beinu framhaldi af skóladegi. Frá kl. 13:30- 14:30 eiga allir nemendur í 1.-4. bekk kost á að velja sér viðfangsefni sem tengist tómstundastarfi, tónlistarnámi eða íþróttaæfingum.
- Tómstundastarf (annað en tónlistarnám og íþróttaæfingar) er nemendum að kostnaðarlausu.
- Nemendur sem velja tónlistarnám á frístundartíma þurfa að vera skráðir nemendur í Tónlistarskólanum á Tröllaskaga
- Nemendur sem velja íþróttaæfingar á frístundartíma þurfa að vera skráðir iðkendur hjá viðkomandi félagi.
- Að lokinni Frístund fá nemendur ávaxtabita áður en haldið er heim eða farið í Lengda viðveru. Ávaxtabiti verður einnig í boði fyrir nemendur 5. bekkjar. Ávaxtabiti verður í boði án endurgjalds.
Tónlistarnám
- Einkakennsla fer fram í húsnæði Tónlistarskólans við Aðalgötu, Siglufirði. Kennarar tónlistarskólans sækja börn og fylgja til baka í skólann við Norðurgötu óski foreldrar þess.
- Samhæfingar og samspil fer fram í húsnæði tónlistarskólans við Aðalgötu, Siglufirði. Kennarar tónlistarskólans sækja börn og fylgja til baka í skólann við Norðurgötu.
- Kóræfingar fara fram í húsnæði Grunnskólans við Norðurgötu.
Íþróttaæfingar
- Íþróttaæfingar fara bæði fram í íþróttasal grunnskólans við Norðurgötu og í Íþróttamiðstöðinni.
- Iðkendum verður keyrt til og frá íþróttamiðstöð.
- Íþróttafélög sem bjóða upp á íþróttaæfingar í Frístund eru Knattspyrnufélag Fjallabyggðar, Blakfélag Fjallabyggðar, Tennis- og babmintonfélag Siglufjarðar og Ungmennafélagið Glói.
Lengd viðvera
- Lengd viðvera tekur við að lokinni Frístund kl. 14:30- 16:00 í skólahúsnæði grunnskólans á Siglufirði fyrir þá sem það kjósa. Greitt er fyrir Lengda viðveru samkvæmt gjaldskrá. Í Lengdri viðveru verður m.a. boðið upp á frjálsan leik, heimanámsaðstoð og síðdegishressingu.
- Skólabíll fer frá skólahúsinu við Norðurgötu strax að lokinni Lengdri viðveru kl. 15:45. Með því móti er skóladagur barna sem nýta sér Lengda viðveru jafn langur.
Skólabíll
- Skólabíll fer frá skólahúsinu við Norðurgötu að loknum skóladegi kl. 13:35 fyrir þá nemendur 1.-4. bekkjar sem ekki hafa hug á að nýta sér Frístund.
- Skólabíll fer frá skólahúsinu við Norðurgötu strax að lokinni Frístund kl. 14:35 fyrir þá nemendur 1.-4. bekkjar sem ekki nýta sér Lengda viðveru og nemendur 5. bekkjar sem þá hafa lokið skóladegi.
- Skólabíll fer frá skólahúsinu við Norðurgötu með börn úr Lengdri viðveru kl. 15:45.
- Rútuliði verður í öllum ferðum skólabíls.
Mat á Frístund
- Að minnsta kosti 1x í mánuði er haldinn fundur með starfsfólki Frístundar þar sem farið er yfir starfið í Frístund og fundnar leiðir til að laga það sem úrskeiðis fer.
- Meta skal árangur og ánægju með Frístund árlega meðal foreldra. Í því mati er horft til markmiða með Frístund.
Ábyrgð og utanumhald á Frístund
- Deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála ber ábyrgð á starfi Frístundar og heldur utan um það í samvinnu við Grunnskólann í Fjallabyggð, Tónlistarskólann á Tröllaskaga og þau íþróttafélög sem taka þátt í starfinu.
- Deildarstjóri fræðslu-, frístunda- og menningarmála boðar til samráðsfundar vegna Frístundar og sér til þess að starfið sé metið.
- Ritari Grunnskóla Fjallabyggðar tekur á móti skráningum í Frístund og útbýr þátttökulista.
Hugmynd að skipulagi Frístundar
Á fundi bæjarstjórnar Fjallabyggðar þann 21. apríl sl. var starfshópur um samþættingu á skóla- og frístundastarfi skipaður. Eftirtaldir aðilar voru skipaðir í hópinn:
Helga Helgadóttir, forseti bæjarstjórnar
Steinunn María Sveinsdóttir, formaður bæjarráðs
S. Guðrún Hauksdóttir, formaður fræðslu- og frístundanefndar
Jónína Magnúsdóttir, skólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar
Ríkey Sigurbjörnsdóttir, aðstoðarskólastjóri Grunnskóla Fjallabyggðar
Magnús G. Ólafsson, skólastjóri Tónlistarskólans á Tröllaskaga
Starfshópurinn fundaði fimm sinnum. Á einn af þeim fundum mættu 7 fulltrúar íþróttafélaga í Fjallabyggð og ræddu um mögulega aðkomu íþróttafélaganna að skipulagningu frístundastarfs strax að loknu skólastarfi. Í framhaldinu lýstu 4 íþróttafélög yfir vilja til þess að taka þátt í starfinu, þ.e. Knattspyrnufélag Fjallabyggðar, Blakfélag Fjallabyggðar, Ungmennafélagið Glói og Tennis-og badmintonfélag Siglufjarðar.
Meirihluti bæjarstjórnar Fjallabyggðar þakkar fulltrúum grunnskóla, tónlistarskóla og íþróttafélaga fyrir þeirra framlag til samþættingar á skóla- og frístundastarfi fyrir börn í
1.-4. bekk. Meirihluti bæjarstjórnar telur að hér hafi stórt og mikilvægt framfaraskref verið stigið í þágu frístundastarfs barna í sveitarfélaginu og vonast til þess að jákvæð viðbrögð fulltrúa íþróttafélaga í Fjallabyggð leiði til áframhaldandi samþættingar á skóla- og frístundastarfi fyrir börn og unglinga.
Texti: fjallabyggd.is