Stjórn og stjórnendur Niceair harma að þurfa að aflýsa öllu flugi frá og með 6. apríl 2023. Þetta er gert í ljósi þess að erlendur flugrekstraraðili félagsins, HiFly, hefur misst einu flugvél félagsins vegna vanskila HiFly við eiganda flugvélarinnar. Þetta gerir Niceair ómögulegt að standa við skuldbindingar gagnvart flugfarþegum.

Þrátt fyrir góðan árangur á sl. ári, sterka bókunarstöðu og góðar horfur inn í árið 2023, þá er upp komin staða sem gerir Niceair ómögulegt að veita þá þjónustu sem til stóð. Því verður gert hlé á starfseminni og stefnt að endurskipulagningu.

Þetta er sorgleg niðurstaða í ljósi þess árangurs sem náðst hefur til þessa og góðra framtíðarhorfa, auk þess sem félagið hefur rétt lokið við fjármögnunarlotu sem tryggja á rekstur þess fram veginn, en sú vegferð hefur staðið yfir frá áramótum. Við höfum haldið úti reglulegu áætlunarflugi milli Norðurlands og Kaupmannahafnar og Tenerife síðan í júní á sl ári með 71% sætanýtingu. Við erum búin að sýna fram á að þessi þjónusta er mjög þörf og heimamarkaðurinn hefur reynst meiri og öflugri en vonir stóðu til. Á þessu tímabili hefur veður sjaldnast haft áhrif, en 2% fluga okkar voru með einhvers konar frávik. Flug um Akureyrarflugvöll reyndist ekki vera vandamál um hávetur og var lent og tekið á loft í marglitum viðvörunum á tímabilinu. Þetta er sorgleg niðurstaða fyrir alla. Mest hörmum við þau óþægindi sem af þessu hljótast fyrir okkar viðskiptavini” segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, framkvæmdastjóri.

Viðskiptavinum er bent á að senda erindi sín á niceair@niceair.is.