Tilkynning frá aðgerðastjórn almannavarna á Norðurlandi vestra

Á fundi aðgerðastjórnarinnar fyrr í dag, var tekin sú ákvörðun að óska ekki eftir því við heilbrigðisráðuneytið að framlengd verði sú reglugerð sem sett var fyrir sveitafélagið Skagafjörð og Akrahrepp, vegna hópsmits sem upp kom á svæðinu um og fyrir sl. helgi.
Jafnframt munu aðrar sóttvarnaraðgerðir sem aðgerðastjórn greip til og gilda til og með sunnudagsins 16.05 ekki verða framlengdar.
Þetta þýðir að frá miðnætti, sunnudagskvöldsins 16. maí gildir fyrir sveitarfélögin Skagafjörð og Akrahrepp reglugerð heilbrigðisráðherra, um takmörkun á samkomum vegna farsóttar, sem sett var 7. maí sl. með þeim takmörkunum sem þar er kveðið á um.
Aðgerðastjórnin telur að með þeim aðgerðum sem að gripið var til, hafi tekist að ná tökum á hópsmitinu. Engin smit hafa greinst utan sóttkvíar í síðastliðinni viku.
Aðgerðastjórnin vill ítreka að íbúar gæti að sínum einstaklingsbundnu sóttvörnum og mæti alls ekki til vinnu eða á aðra þá staði hvar fólk kemur saman sé það með einhver einkenni, heldur panti tíma í skimun á heilsuvera.is eða hafi samband við Heilbrigðisstofnun Norðurlands.
Aðgerðastjórn vill koma á framfæri þakklæti til íbúa, fyrirtækja og stofnana fyrir samstöðu og samheldni í þessu verkefni.
Enn og aftur munum sóttvarnirnar, sprittum okkur, notum grímur og munum fjarlægðarmörk.