Tilfærslur og uppsagnir í Fjallabyggð vegna breytinga á skipuriti

Vegna breytinga á skipuriti í sveitarfélaginu Fjallabyggð verða ýmsar sameiningar og uppsagnir starfa.

Sameina á starf íþrótta- og tómstundafulltrúa Fjallabyggðar og forstöðumanns íþróttamannvirkja í eitt starf vegna breytinga á skipuriti.  Núverandi starfsmönnum hefur verið boðið að sækja um nýja stöðu í fjölskyldudeild.

Starf fræðslu- og menningarfulltrúa Fjallabyggðar er lagt niður vegna breytinga á skipuriti. Núverandi starfsmanni hefur verið boðið nýtt starf markaðs- og menningarfulltrúa í stjórnsýslu- og fjármáladeild Fjallabyggðar.

Starf umhverfisfulltrúa Fjallabyggðar verður lagt niður og verður þeirri vinnu stýrt af deildarstjóra tæknideildar og verkefni falin öðrum starfsmönnum Fjallabyggðar og/eða tímabundnum ráðningum yfir sumarið.

Aðrar áherslur í breytingu á skipuriti
Skólastjórar, yfirhafnarvörður og slökkviliðsstjóri heyra samkvæmt nýju skipuriti beint undir bæjarstjóra Fjallabyggðar.
Fagleg hlið fræðslumála t.d. sérfræðiþjónusta, mun framvegis vera á ábyrgð deildarstjóra fjölskyldudeildar, skólastjórnenda og starfsmanna fræðslustofnana Fjallabyggðar. Starfsmaður í ráðhúsi Fjallabyggðar mun auk þess vinna með skólastjórnendum.