Um síðustu mánaðamót var Þristurinn, Douglas DC-3, TF-NPK, dreginn inn í flugskýli Flugsafns Íslands til vetrardvalar. Verkið unnu félagar í Erninum – Hollvinafélagi Flugsafns Íslands ásamt Þristavinum, starfsmönnum Icelandair og Isavia á Akureyri.

Þetta er fimmtándi veturinn sem TF-NPK er hýstur í upphitaða flugskýli Flugsafnsins Þristavinafélaginu að kostnaðarlausu.

Vélin Douglas C47A er frá árinu 1943 og verður því 80 ára á næsta ári.

Flugvélin kom til Íslands á vegum Bandaríkjahers á haustmánuðum 1943. Flugfélag Íslands keypti flugvélina árið 1946 og var hún skráð til bráðabirgða hérlendis þann 26. júlí með einkennisstafina TF-ISH. Fullnaðarskráning vélarinnar var gerð 12. ágúst 1946 og er TF-ISH/TF-NPK fyrsta flugvélin af þessari gerð í eigu Íslendinga.

Þegar Flugfélag Íslands ákvað að skíra flugvélarnar sínar faxanöfnum árið 1948 fékk TF-ISH nafnið “Gljáfaxi”.

Myndir: Héðinsfjörður.is/ Magnús Rúnar Magnússon