Þrír nýjir leikmenn til KF á síðustu dögum

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar hefur verið að styrkja sig áður en félagskiptaglugginn lokar þann 15. maí næstkomandi. Síðustu daga hafa þrír leikmenn komið til félagsins, þar af einn erlendur leikmaður frá Serbíu.

Magnús Aron Sigurðsson kemur frá Leikni og er 20 ára. Hann hefur spilað síðustu ár með 2. flokki Leiknis. Gauti Freyr Guðbjartsson kemur frá Völsung og er fæddur árið 1996. Hann hefur leikið með 2. flokki félagsins og á nokkra leiki fyrir meistaraflokk Völsung í Kjarnafæðismótinu.  Miljan Mijatovic frá Serbíu hefur einnig fengið leikheimild með KF, en hann er varnarsinnaður miðjumaður samkvæmt þeim upplýsingum sem liggja fyrir um hann. Hann er fæddur árið 1989 og er 180 cm á hæð. Hægt er að sjá myndbandsbrot úr leikjum hans með serbneskum liðum á Youtube.

Samkvæmt spá þjálfaranna þá er KF spáð 6. sæti í deildinni. Þjálfari KF, Slobodan Milisic segir í viðtali við Fótbolta.net að spáin komi sér ekki á óvart, og segir að félagið sé búið að styrkja sig að undanförnu og að þeir séu tilbúnir fyrir sumarið. KF ætli sér að afsanna þessa spá og vera í toppbaráttunni. Hann segir markmiðið sé að taka einn leik í einu og reyna vinna og sjá hversu langt það tekur liðið. Hann telur að liðin í deildinni séu svipuð af gæðum og telur að mótið verði jafnt.