Þrír leikmenn farnir frá KF og tveir komnir

Nokkur félagskipti hafa orðið undanfarna daga og eru að renna í gegn hjá KSÍ, en þrír öflugir leikmenn KF hafa leitað að á ný mið í þessum félagsskiptaglugga. Tveir leikmenn hafa einnig skrifað undir hjá KF á sama tíma.

Helst bera að nefna Oumar Diouck en hann hefur samið við Njarðvík, en hann kvaddi leikmenn og stuðningsmenn KF sl. haust og var nokkuð ljóst að hann væri á förum. Hann lék tvö tímabil fyrir KF og var algjörlega frábær, lét 45 leiki og skoraði 30 mörk og er ljóst að það verður erfitt að fylla hans skarð.

Þá er Birkir Már Hauksson farinn frá KF til Magna, en hann lék aðeins eitt tímabil með liðinu eða 17 leiki. Birkir er uppalinn hjá Þór.

Andi Andri Morina er farinn til Ægis í Þorlákshöfn og hann lék einnig aðeins eitt tímabil með KF og náði 18 leikjum í deild og bikar og skoraði 2 mörk.

Þá er Ingvar Gylfason kominn til KF frá Samherja, hann er fæddur árið 1991 og á meðal annars leiki með Magna og Dalvík en er uppalinn í KA.

Einnig er Viktor Smári Elmarsson genginn til liðs við KF frá KA en hann lék með 2. flokki KA/Dalvík/Reyni/Magna á síðasta tímabili en er uppalinn hjá FH.

Talsverðar breytingar á hópnum eins og oft er hjá liðinu, sérstaklega hefur verið erfitt að halda erlendum leikmönnum í meira eitt tímabil. Það er alltaf ákveðið tækifæri fyrir yngri leikmenn að stíga upp þegar að sterkir leikmenn hverfa á braut.

Liðið hefur náð stöðugleika í 2. deildinni undanfarin ár og verður hópurinn vonandi þéttur og góður þegar Íslandsmótið byrjar.