Þrír lánsmenn KF kveðja liðið

Þrír leikmenn sem komu á láni til Knattspyrnufélags Fjallabyggðar nú í sumar hafa snúið til sinna liða aftur og eru tímabundnu félagsskiptin gengin til baka. Vitor Thomas er snúinn aftur til Víkings í Ólafsvík en hann kom á láni til KF í júlí og lék 8 leiki með liðinu í sumar. Hann er uppalinn hjá KF en hefur verið á mála hjá Víkingi í tvö tímabil.

Áki Sölvason er snúinn aftur til KA eftir góða innkomu í lið KF í sumar. Hann lék 6 leiki og skoraði 4 mörk og er klárlega leikmaður sem KF getur notað.

Þá er Nikola Kristinn farinn til Þórs en hann lék 13 leiki með KF í sumar og stóð sig vel.

Aðrar leikmannafréttir hjá KF eru ekki opinberar, en vonandi nær liðið að halda í sterkustu leikmenn liðsins á næsta tímabili en líklegt er að sóknarmenn liðsins verði heitir bitar á markaðnum.