Þrír lánsmenn farnir frá KF

Lánssamningum þriggja leikmanna Knattspyrnufélags Fjallabyggðar er lokið. Í vor fékk KF þrjá unga og efnilega leikmenn frá KA og Magna á lánssamningi sem gilti út leiktíðina. Þessir leikmenn fengu gott tækifæri til að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki í alvöru mótsleikjum með KF í sumar, og voru mikilvægur partur af liðinu. Þetta eru þeir Andri Snær Sævarsson frá KA, Björn Andri Ingólfsson frá Magna og Tómas Veigar Eiríksson frá KA.

Andri Snær spilaði 19 leiki fyrir liðið sumar. Björn Andri spilaði 20 leiki og skoraði 6 mörk og var markahæsti leikmaður liðsins. Tómas Veigar lék 20 leiki og skoraði 1 mark. Strákarnir eru allir 20 ára, og eru allt efnilegir knattspyrnumenn sem eiga framtíðina fyrir sér.

Nokkrir aðrir leikmenn KF eru með lausa samninga, sem og þjálfari liðsins, og því gætu orðið einhver ný andlit í hópnum á næsta ári.