Þriðji sigur KF í röð í Lengjubikar

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar lék við Fjarðarbyggð/Huginn í Lengjubikarnum í dag. KF hafði unnið síðustu tvo leiki í Lengjubikarnum og komu inn með gott sjálfstraust í leikinn. Liðið var aðeins breytt frá síðasta leik sem var gegn Leikni Fáskrúðsfirði. Inn í byrjunarliðið voru komnir þeir Hákon Leó,  Anton Örn, Sævar Þór og Þorsteinn Már.

Það voru gestirnir sem skoruðu fyrsta markið og kom það á 36. mínútu, en markið gerði Aron Sigurvinsson, en hann er nýkominn með leikheimild með Fjarðarbyggð/Huginn. Staðan var 0-1 í hálfleik, en strákarnir úr Fjallabyggð ætluðu ekki að fara tómhentir heim úr þessum leik. Andri Snær jafnar leikinn fyrir KF á 66. mínútu, en hann er lánsmaður frá KA, og skoraði hann sitt annað mark í þremur leikjum fyrir KF. Aðeins níu mínútum síðar skorar Andri Freyr annað mark KF, og staðan orðin 2-1 þegar um 15 mínútur voru eftir af leiknum. Andri skoraði einnig í síðasta leik, og var þetta einnig sigurmark leiksins. KF er því komið með 9 stig í riðlinum og er í 2. sæti þegar aðeins ein umferð er eftir.

KF leikur næst við Hött, fimmtudaginn 29. apríl kl. 14:00 á Fellavelli í Fljótsdalshéraði.