Um 49 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í nýliðnum marsmánuði samkvæmt talningum Ferðamálastofu eða um 15 þúsund fleiri en í sama mánuði árið 2012. Um er að ræða 45,5% aukningu milli ára.

Þreföld aukning ferðamanna frá 2002

ferðamenn mars 13

Þegar litið er til fjölda ferðamanna í marsmánuði á tólf ára tímabili (2002-2013) má sjá að jafnaði 11,4% aukningu milli ára. Fjöldi ferðamanna hefur nærri þrefaldast frá árinu 2002 en þá komu 17 þúsund ferðamenn til landsins.

Bretar tæplega þriðjungur ferðamanna

Af einstaka þjóðernum voru flestir ferðamenn í mars frá Bretlandi (31,6%). Ferðamenn frá Bandaríkjunum (14,2%), Noregi (7,3%), Þýskalandi (6,4%), Danmörku (5,6%), Frakklandi (5,0%) og Svíþjóð (4,3%) fylgdu þar á eftir. Samtals voru þessar sjö þjóðir þrír fjórðu ferðamanna í mars.

Veruleg aukning frá öllum markaðssvæðum

Þegar litið er til einstakra markaðssvæða má sjá 69,7% aukningu frá Bretlandi, 61,2% aukningu frá N-Ameríku, 38,7% frá Mið- og Suður Evrópu og 50,5% frá löndum sem eru flokkuð undir ,,annað“. Aukning Norðurlandabúa var í minna mæli eða 10,8%.

Heimild: Ferðamálastofa.is