Þórsarar mörðu sigur á KF

Knattspyrnufélag Fjallabyggðar og Þór frá Akureyri kepptu í gær á Norðurlandsmótinu í Boganum á Akureyri. Í liði KF voru nokkrir menn á reynslu sem áhugavert verður að fylgjast með hvort þeir spili með liðinu í sumar. Fyrirliði KF í þessum leik var Trausti Eiríksson, en hann spilaði fyrir Dalvík s.l. sumar.

Þórsarar byrjuðu leikinn betur og skoruðu fyrsta markið eftir 70 sekúndur en það var Sveinn Elías sem skoraði. Þórsarar héldu áfram og á 12. mínútu fengu þeir vítaspyrnu þegar Sveinn Elías var felldur innan teigs. Ármann Pétur skoraði úr spyrnunni og staðan orðin 2-0.  KF minnkaði muninn á 25. mínútu, en það var hinn ungi og efnilegi Valur Reykjalín sem náði frákasti og skoraði með föstu skoti. KF byrjaði vel í síðari hálfleik og jöfnuðu leikinn í 2-2 með marki Heimis Inga, en hann kom inná sem varamaður undir lok fyrri hálfleiks. Þórsarar sóttu mikið eftir jöfnunarmark KF og skoruðu þeir sitt þriðja mark á 77. mínútu, staðan orðin 3-2 sem urðu lokatölur leiksins.