Þorgrímur Þráinsson heimsótti Grunnskóla Fjallabyggðar

Þorgrímur Þráinsson rithöfundur, heimsótti í morgun nemendur í 10. bekk Grunnskóla Fjallabyggðar og var með fyrirlesturinn Verum ástfangin af lífinu.  Fyrirlesturinn er hvatning til nemenda um að – Láta drauminn rætast – með því að bera ábyrgð á eigin lífi, setja sér markmið, hafa trú á sjálfum sér til að ná markmiðunum og skipuleggja sig í samræmi við það.  Þorgrímur fjallaði einnig um mikilvægi þess að halda góðu jafnvægi milli einkalífs, atvinnu og tómstunda til þess að þroskast fallega og lifa björtu lífi. Þá hvatti hann nemendur til að sýna samkennd, bera virðingu fyrir öllum og hafa hugrekki til að fylgja hjartanu.
„Elskaðu sjálfan þig og þá verður þú ástfanginn af lífinu. Gærdagurinn er liðinn og framtíðin óskrifað blað. Lifðu í núinu” segir Þorgrímur Þráinsson.

Þorgrímur Þráinsson er einn af reyndustu og skemmtilegustu fyrirlesurum landsins. Undanfarin ár hefur hann ferðast um landið og haldið vinsæla fyrirlestra fyrir skóla og fyrirtæki.