Þjónustuver ríkisskattstjóra flutt til Siglufjarðar og Akureyrar

Þjónustuver ríkisskattstjóra er nú alfarið flutt til Siglufjarðar og Akureyrar en það gerðist núna um áramótin. Á annað hundrað manns sóttu um fimm störf sem auglýst voru þar í september 2013.

Á starfsstöðvum RSK á Akureyri og Siglufirði eru nú 28 starfsmenn sem vinna fyrst og fremst við álagningu einstaklinga, símaþjónustu auk þess að sinna nærþjónustu.  Helstu verkefni eru símsvörun í þjónustuveri og á skiptiborði, upplýsingagjöf um skattamál, afgreiðsla skattkorta og annarra gagna sem viðskiptavinir óska eftir.

Þeir starfsmenn sem unnu við þjónustuverið í höfðstöðvunum í Reykjavík halda áfram að starfa í afgreiðslu eða hverfa til annarra starfa innan embættisins. Rekstur ríkisskattstjóra hefur verið endurskoðaður og endurskipulagður frá árinu 2010. Markvisst er unnið að því að tryggja störf á landsbyggðinni.