Sem hluti af umbreytingarvegferð Olís verður þjónustustöðvum Olís í Ólafsfirði, á Skagaströnd og í Fellabæ breytt í ÓB sjálfsafgreiðslustöðvar. Á næstu árum stefnir Olís að því að útvíkka þjónustu- og vöruframboð þjónustustöðva til að mæta breyttum þörfum viðskiptavina. Liður í þeirri vegferð felur í sér fækkun og stækkun þjónustustöðva og af þeim sökum verður tilteknum staðsetningum breytt í sjálfsafgreiðslustöðvar. Í framhaldinu verður vöru- og þjónustuframboð eflt í Olís þjónustumiðstöðinni á Siglufirði. Hagstæðari kjör verða á sjálfsafgreiðslu ÓB í Ólafsfirði.
Þrátt fyrir blendnar tilfinningar í tengslum við fækkun þjónustustöðva þá er nauðsynlegt að skjóta traustari stoðum undir rekstur þeirra til að umrædd starfsemi standist tímans tönn. Útvíkkun eftirstandandi þjónustustöðva í þægindamiðstöðvar er sú lausn sem félagið hefur trú á í þessu samhengi.
Olís mun eftir fremsta megni lágmarka áhrif umræddra breytinga á þau nærsamfélög þar sem þjónustustöðvum verður breytt í sjálfsafgreiðslustöðvar og þá verður jafnframt leitast við að bjóða fastráðnu starfsfólki störf á öðrum starfsstöðvum Olís eða hjá tengdum aðilum. Með breytingu í sjálfsafgreiðslustöðvar gefst tækifæri til að bjóða viðskiptavinum hagstæðari kjör á eldsneyti og stefnt er að því að húsnæði félagsins á hverjum stað nýtist í rekstur af öðru tagi. Gert er ráð fyrir að breytingarnar eigi sér stað á öllum þremur staðsetningum um miðjan september 2022.
Frekari upplýsingar vegna Ólafsfjarðar
Unnið verður að því að finna rekstraraðila sem getur nýtt húsnæði Olís á Ólafsfirði. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að efla vöru- og þjónustuframboð Olís innan Fjallabyggðar í gegnum þjónustustöð félagsins á Siglufirði. Þær breytingar munu eiga sér stað á næstu misserum. Við umbreytingu í ÓB sjálfsafgreiðslustöð verður unnt að bjóða hagstæðari kjör á eldsneyti á umræddri staðsetningu.
Frekari upplýsingar vegna Skagastrandar
Unnið verður að því að finna rekstraraðila sem getur nýtt húsnæði Olís á Skagaströnd. Viðskiptavinum á svæðinu verður tryggt aðgengi að þeim vöruflokkum sem ekki er unnt að nálgast hjá öðrum rekstraraðilum á svæðinu, s.s. bílavörum og gasi. Þetta verður gert í gegnum umboðsmann Olís á Skagaströnd. Þá verður þjónustu fyrirtækjasviðs jafnframt viðhaldið á svæðinu. Við umbreytingu í ÓB sjálfsafgreiðslustöð verður unnt að bjóða hagstæðari kjör á eldsneyti á umræddri staðsetningu.