Þjóðlistahátíðinni Vöku lokið

Þjóðlistahátíðin Vaka fór fram dagana 30. maí- 3. júní á Akureyri, Siglufirði, Húsavík og Reykjavík. Flestir viðburðirnir fóru fram á Akureyri en einnig voru svokallaðir Farandtónleikar Vöku sem voru meðal annars í Olíutanki Síldarminjasafnsins á Siglufirði og á Gamla Bauk á Húsavík. Hátíðin hefur verið haldin á Akureyri síðan árið 2014.

Hátíðin var í góðu samstarfi við Tónlistarskólann á Akureyri, Akureyrarstofu, Menningarfélag Akureyrar og fleiri. Boðið var upp á spennandi tónleika, námskeið, samspil og hugvekjur.  Á Vöku voru opnir kaffitónleikar á Bláu könnunni, kvöldtónleikar í Hömrum í Hofi, námskeið í dansi, söng og hljóðfæraleik, hádegishugvekjur og samspilsstundir í Hofi og á Götubarnum.

Harmonikutónlist, gömlu dansarnir og þjóðdansar voru í forgrunni auk rímnalaga og komu á hátíðina listamenn frá Noregi, Englandi, Hjaltlandseyjum og Finnlandi.