Þjóðlistahátíðin Vaka

Þjóðlistahátíðin Vaka  verður  haldin á Akureyri  dagana 15. – 18. júní 2016, í annað sinn. Vaka er hátíð íslenskra þjóðdansa, kveðskapar, tvísöngva og handíða og í þetta sinn, einnig Norskrar þjóðtónlistar. Hægt er að kaupa hátíðarpassa, eða á staka tónleika.

Á Vöku fá innlendir og erlendir gestir einstakt tækifæri til að kynnast hefðbundinni íslenskri þjóðtónlist, þjóðdönsum og handíðum, en þar að auki má sjá og heyra úrval listamanna frá norður Evrópu. Á fjórum dögum verða haldnir síðdegistónleikar, kvöldtónleikar, danssýningar, kvæðatónleikar, námskeið, málþing, samspilsstundir, handíðasýningar, skemmtikvöld með almennum söng og dansi.

Vaka varð til sem sjálfstætt framhald af norrænu ráðstefnunni og tónlistar- og danshátíðinni Erfðir til framtíðar (Tradition for Tomorrow) sem ÞjóðList og Nordisk Folkmusik Kommitté héldu á Akureyri í ágúst 2014. Erfðir til framtíðar var í samstarfi við menntamálaráðuneytið og á dagskrá Norrænu ráðherranefndarinnar vegna formennsku Íslands í nefndinni árið 2014.

Undirbúningur fyrir Vöku 2016 er nú í fullum gangi og innan tíðar kemur í ljós hvaða listamenn sækja hátíðina heim.