Þjóðlagasetur getur fengið Eyrarrósina

Eyrarrósin er viðurkenning fyrir framúrskarandi menningarverkefni á starfssvæði Byggðastofnunar. Meðal þeirra sem koma til greina í ár er Þjóðlagasetrið á Siglufirði. Markmið Eyrarrósarinnar er að beina sjónum að og hvetja til menningarlegrar fjölbreytni, nýsköpunar og uppbyggingar, á sviði menningar og lista. Það eru Byggðastofnun, Flugfélag Íslands og Listahátíð í Reykjavík sem staðið hafa saman að verðlaununum frá upphafi árið 2005, en það ár fékk Þjóðlagahátíðin á Siglufirði viðurkenninguna.

Þann 18. mars verður tilkynnt hvaða þrjú verkefni hljóta tilnefningu til verðlaunanna.Þau verkefni sem verða tilnefnd hljóta peningaverðlaun og flugferðir frá Flugfélagi Íslands. Dorrit Moussaieff, verndari Eyrarrósarinnar afhendir verðlaunin þann 4. apríl. Áhöfnin á Húna hlaut Eyrarrósina 2014.

Þjóðlagasetrið á Siglufirði
Frá stofnun Þjóðlagaseturs hefur það stuðlað að söfnun, varðveislu og miðlun íslensks þjóðlagaarfs. Í Þjóðlagasetrinu er sagt frá þjóðlagasöfnun sr. Bjarna Þorsteinssonar auk þess má þar sjá margvísleg alþýðuhljóðfæri. Einnig hefur setrið staðið fyrir fjölbreyttum viðburðum.

Þjóðlagasetur