Þjóðlagahátíðin á Siglufirði hlaut háan styrk úr Tónlistarsjóði

Mennta- og menningarmálaráðherra hefur samþykkt tillögu tónlistarráðs um úthlutun úr Tónlistarsjóði fyrir fyrra tímabil ársins 2018. Að þessu sinni voru veittir styrkir til 58 verkefna að heildarupphæð 47.240.000 kr.  Alls bárust 123 umsóknir í sjóðinn en hann hefur það hlutverk að efla íslenska tónlist og stuðla að kynningu á íslenskum tónlistarmönnum og tónsköpun þeirra. Meðal styrkþega á Norðurlandi er Þjóðlagahátíðin á Siglufirði en hún hlaut 800.000 kr. styrk. Þá fékk Þjóðlist 200.000 kr. styrk fyrir Þjóðlistahátíðina Vöku á Akureyri. Sumartónleikar og Kórastefna við Mývatn hlaut 700.000 kr. styrk,  Tónlistarfélag Akureyrar hlaut 400.000 kr. styrk fyrir 75 ára afmælisviku Tónlistarfélags Akureyrar.

Styrkirnir eru veittir til almennrar tónlistarstarfsemi og til kynningar og markaðsetningar á tónlist og tónlistarfólki. Aðstandendur tónlistarverkefna geta sótt um styrk en sjóðurinn skiptist í tvær deildir, tónlistardeild og markaðs- og kynningardeild. Tónlistardeild veitir styrki til almennrar tónlistarstarfsemi, en markaðs- og kynningardeild veitir styrki til kynningar og markaðssetningar á tónlist og tónlistarfólki hér á landi og erlendis.
Umsóknarfrestir eru tvisvar á ári og er næst hægt að sækja um fyrir 15. maí næstkomandi.

,,Tónlistarsjóður gegnir mikilvægu hlutverki í að styðja við framgang íslenskrar tónlistar hér heima og erlendis. Sú mikla gróska sem á sér stað í tónlistarlífinu er ánægjuleg og er sá fjöldi umsókna til sjóðsins skýrt merki um þann mikla kraft og fjölbreytileika sem býr í tónlistarfólki víðs vegar um landið. Ríkisstjórnin mun halda áfram að styðja við íslenska tónlist á kjörtímabilinu‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.