Þjóðlagahátíðin á Siglufirði 2014

Þjóðlagahátíðin verður haldin sumarið 2014 dagana 2.–6. júlí. Er þetta fimmtánda þjóðlagahátíðin sem haldin hefur verið. Hún verður haldin með líku sniði og undanfarin ár. Hátíðin ber nú yfirskriftina Dragspilið dunar. Harmónikkan verður í öndvegi og koma harmónikuleikarar víða að á hátíðina. Sérstök áhersla verður lögð á franska tónlist og stendur til að franska sendiráðið aðstoði við komu franskra tónlistarmanna á hátíðina.

Tónleikar og leiksýningar verða fyrir börn og fullorðna, námskeið verða haldin í tónlist, leiklist og fornu handverki auk þess sem þjóðlagaakademía verður haldin í samvinnu við Stofnun Árna Magnússonar og LHÍ.