Þjóðdansafélag og Kvæðamannafélag stofnuð á Siglufirði

Guðrún Ingimundardóttir og Þórdís Pétursdóttir hafa stofnað félagið Þjóðlist ehf. Fyrir tilstilli félagsins voru tvö félög stofnuð á afmælisdegi sr. Bjarna Þorsteinssonar þann 14. október sl. Þau eru þjóðdansafélag og kvæðamannafélag. Félögin hafa ekki enn fengið nöfn en fjölmargir aðilar hafa nú þegar skráð sig. Tilgangur Þjóðdansafélags í Fjallabyggð er að halda námskeið og danskvöld og efla samstarf við önnur þjóðdansafélög um allt land. Stofna á samtök þjóðdansafélaga með heimili á Siglufirði og félagið verður umboðsaðili fyrir þjóðdansafélög innlend og erlend. Þá á að halda hátíð þjóðdansa á Siglufirði í febrúar ár hvert. Tilgangur Kvæðamannafélags í Fjallabyggð er að halda kvæðanámskeið og kvæðakvöld. Einnig að vera umboðsaðili kvæðamanna við innlenda aðila og erlend félög í svipuðum geira, með það að markmiði að gera kvæðamönnum kleift að koma fram innanlands og utan á samkomum, hátíðum og námskeiðum. Halda á hátíð íslenskra kvæðamanna og þjóðlagasöngvara á Siglufirði í október ár hvert.