Þegar Dornier vél Íslandsflugs magalenti á Siglufjarðarflugvelli

Þrettán ár eru liðin síðan flugvél Íslandsflugs af gerðinni Dornier brotlenti á Siglufjarðarflugvelli 23. júní 2004. Vélin var í æfingarflugi og voru flugmenn hennar að framkvæma lendingaræfingar á flugvellinum. Framkvæmd hafði verið ein snertilending en eftir aðra lendingu hafnaði vélin á flugbrautinni með hjólabúnaðinn uppi. Flugmennirnir voru einir um borð og sakaði þá ekki. Vélin var hífð um borð á pramma og þaðan í skip og send til Reykjavíkur. Báðir hreyflar vélarinnar voru ónýtir þar sem þeir snertu flugbrautina í lendingunni. Siglfirðingar töluðu um að þarna hefði verið æfingaflug þar sem Hákon krónprins Noregs var væntanlegur með Íslandsflugi 29. júní. Myndir með fréttinni tók Steingrímur Kristinsson.

Flugvélin rann um það bil 280 metra eftir flugbrautinni þar til hún stöðvaðist. Flugstjórinn var 58 ára karlmaður með 8.400 flugtíma. Flugmaðurinn var 28 ára karlmaður með 1117 flugtíma. Á flugvellinum á Siglufirði er ein flugbraut sem er 1.084 metrar á lengd og liggur í norðaustur/suðvestur.

Mynd: Steingrímur Kristinsson, sk21.is

 

 

 

 

 

 

 

 

Í skýrslu Rannsóknarnefndar flugslysa kom fram líklegustu orsakir slyssins:

  •  Hjólabúnaðurinn var ekki settur niður.
  •  Gátlistar voru ekki notaðir eftir fyrri lendinguna.
  •  Framsýnn jarðvari var aftengdur af áhöfn.
  •  Flugmaðurinn tók við stjórn flugvélarinnar óviss um hvernig næsta aðflugi skyldi háttað.
  • Þar sem umferðahringurinn var floginn til austurs (þ.e. fjallmegin fremur en yfir firðinum) var lítið svigrúm vegna þrengsla.