TF-LÍF fann lík nærri Selvogsvita

Um klukkan 13:00 í dag fann áhöfn TF-LIF, þyrlu Landhelgisgæslunnar, lík í fjörunni rétt vestur af Selvogsvita, sem er um 15 kílómetra vestur af Þorlákshöfn. Þyrlan lenti skammt frá vettvanginum og var lögreglu strax gert viðvart. Hún kom á staðinn skömmu síðar. Talið er að líkið sé af Birnu Brjánsdóttur, sem saknað hefur verið frá því á laugardag fyrir rúmri viku.

TF-LIF fór í loftið frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 10.40. Áformað var að fljúga meðfram strandlengjunni frá Hafnarfirði, vestur fyrir Garðskaga og Reykjanes og allt austur að Þjórsárósum. Þyrlan lenti á Reykjavíkurflugvelli klukkan 16.10.

Þyrla Landhelgisgæslunnar hefur undanfarna daga tekið þátt í leitinni að Birnu Brjánsdóttur. TF-LIF flutti sérsveitarmenn um borð í danska herskipið Tríton og grænlenska togarann Polar Nanoq í nýliðinni viku. Þá leituðu kafarar Landhelgisgæslunnar í Hafnarfjarðarhöfn að vísbendingum sem varpað gætu ljósi á hvarf Birnu. Bátarnir Baldur og Óðinn voru notaðir við leitina.