Tennis- og badmintonfélag Siglufjarðar 50 ára

Tennis- og badmintonfélag Siglufjarðar var stofnað þann 5. desember 1964 og voru stofnendur 38 talsins. Fyrstu stjórnina skipuðu þeir: Jóhannes Þ. Egilsson, formaður; Guðlaugur Henriksen, varaformaður; Birgir Schiöth, ritari; Páll Hlöðversson, gjaldkeri og Hreinn Steinsson, meðstjórnandi. Tilgangur félagsins var iðkun badminton, en aðstaða tennis var ekki fyrir hendi við stofnun félagsins. Árið 1968 sendi Tennis- og badmintonfélag Siglufjarðar fjóra keppendur á unglingameistaramót Íslands í fyrsta skiptið og fengu allir fyrstu verðlaun. Til ársins 1975 sendi félagið 20-40 keppendur á mótið.

Íslandsmót var haldið á Siglufirði árin 1969 og 1973. Árið 1974, eða fyrir 40 árum síðan tók félagið þátt í deildakeppni Badmintonfélags Íslands og stóð uppi sem sigurvegari. Þá voru Norðurlandsmót fullorðinna haldin á Siglufirði árin 1984 og 1986 og í unglingaflokkum árin 1985 og 1987.

Félagið heldur úti heimasíðu í dag, tbs.123.is, en þar er að finna ýmsar myndir af mótum félagsins. Í ljósmyndasafni Siglufjarðar má finna nokkrar eldri myndir frá badmintonfólki á Siglufirði.

9211876b-ee57-47ad-bd25-e65d70995be1

 

 

 

Heimild: Siglufjörður – 1818-1918-1988, Útg. Forlag 1988. Höf. Ingólfur Kristjánsson.