Tekist á um Grunnskóla Fjallabyggðar í Fræðslunefnd

Meirihluti fræðslunefndar Fjallabyggðar leggur fram svohljóðandi tillögu;

Skólastjórnendum er falið að haga kennslu í húsnæði Grunnskóla Fjallabyggðar með neðangreindum  hætti;

•     Að yngsta stig,  1.-4. bekkur, verði kennt að jöfnu í báðum byggðakjörnum Fjallabyggðar. Lögð verði áhersla á einstaklingsmiðað nám sem kenna má með sambærilegum hætti og gert er nú í vetur þ.e. með samkennslu.
•     Að miðstig, 5.-7. bekkur, verði kennt alfarið í Ólafsfirði.
•     Að unglingastig, 8.-10. bekkur, verði kennt alfarið á Siglufirði.

Megin tilgangurinn er að tryggja að yngstu börnin séu í sínu nánasta umhverfi fyrstu skólaárin og að jafna akstursálag á börn í Grunnskóla Fjallabyggðar.  Rétt er að taka fram að þetta fyrirkomulag kennslu  hefur ekki í för með sér aukinn kostnað við byggingarframkvæmdir vegna stækkunar skólahúsnæðis Grunnskóla Fjallabyggðar.
Tillagan var samþykkt með þremur atkvæðum.

Minnihlutinn telur að hyggilegra væri að skólastjórnendum væri falið að meta kennslufyrirkomulag áður en ráðist er í byggingar. Minnihlutinn bendir á að skóli sé alls ekki steinsteypa, heldur það starf sem þar fer fram. Áður en ráðist er í kostnaðarsamar byggingar er almenn skynsemi að byggingar séu gerðar fyrir fyrirfram ákveðna nýtingu, en ekki að skólastarfið verði mótað eftir óbyggðum byggingum.