Tekinn á 162 km hraða á milli Sauðárkróks og Varmahlíðar

Mikið hefur verið að gera hjá Lögreglunni á Norðurlandi vestra í vikunni og hafa umferðarmál komið mikið við sögu. 152 ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur síðastliðna viku og var sá hraðasti mældur á hraðanum 162 km/klst á milli Sauðárkróks og Varmahlíðar þar sem hámarkshraði er 90 km/klst.
Í gær var sérstakur umferðareftirlitsdagur hjá hjá Lögreglunni á Norðurlandi vestra og voru fjórar lögreglubifreiðar við hraðaeftirlit samtímis á þjóðvegum umdæmisins og voru 45 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í gær. Sá hraðasti mældist á 138 km/klst á þjóðvegi 1, í Blönduhlíð, þar sem hámarkshraði er 90 km/klst.
Framundan hjá Lögreglunni á Norðurlandi er áframhaldandi umferðareftirlit.