Talið að um 100.000 erlendir ferðamenn hafi komið til Siglufjarðar árið 2018
Ný skýrsla um ferðamenn í Fjallabyggð sem komu á árunum 2014-2018 sýnir að um 100.000 ferðamenn erlendir hafi komið til Siglufjarðar árið 2018 og 78.000 til Ólafsfjarðar sama ár. Skýrslan er unnin af fyrirtækinu Rannsókn og ráðgjöf ferðaþjónustunnar. Alla skýrsluna má lesa á PDF útgáfu á vef Fjallabyggðar.
Niðurstöður eru unnar úr könnuninni Dear Visitors sem fyrirtækið Rannsóknir og ráðgjöf ferðaþjónustunnar hefur framkvæmt meðal brottfararfarþega í Leifsstöð allt frá sumrinu 1996 og síðan nær stöðugt alla mánuði ársins frá janúar 2004. Þá hefur könnunin einnig oft verið framkvæmd á sumrin meðal ferðamanna með Norrænu á Seyðisfirði. Þar hefur frá 2003 allaf verið spurt um komur til Siglufjarðar og Ólafsfjarðar. Í samantekt er lögð áhersla á að skoða komur erlendra ferðamanna í Fjallabyggð í heild og í byggðarkjarnana hvorn fyrir sig með samanburð við komur ferðamanna í Eyjafjörð. Að jafnaði tóku 3-4.000 manns þátt í könnuninni hverju ári.
Samkvæmt Dear Visitors könnun RRF má áætla að 100.000 þúsund erlendir ferðamenn hafi haft viðkomu á Siglufirði árið 2018, 82.000 þúsund árið 2016, 32.000 þúsund árið 2013, 16.000 þúsund árið 2010 og 10.500 þúsund árið 2004. Samkvæmt því fjölgaði þeim 9,5 falt frá 2004 til 2018, 6,3 falt frá 2010 til 2018, 3,4 falt frá 2013 til 2018 og um 22% frá 2016 til 2018.
Þetta þýðir að 4,6% erlendra ferðamanna til Íslands með flugi eða ferju árið 2018 höfðu einhverja viðdvöl á Siglufirði (7,5% sumargesta og 3% gesta utan sumars), 3,9% ferðamanna til Íslands árið 2013 en 2,8% árið 2004. Samkvæmt því hefur Siglufjörður aukið hlutdeild sína í ferðamönnum til Íslands um 71% frá árinu 2004 og um 18% frá árinu 2013.
Sumarmánuðina þrjá er áætlað að erlendum ferðamönnum á Siglufirði hafi fjölgað úr 9 þúsund árið 2004 í 58 þúsund árið 2018, eða 6,4 falt. Hins vegar fjölgaði erlendum vetrarferðamönnum þangað 28 falt á sama tímabili, úr 1,5 þúsund í 42 þúsund.
Þessar niðurstöður þýða jafnframt að 17% þeirra erlendu ferðamanna sem lögðu leið sína í Eyjafjörð árið 2018 komu á Siglufjörð. Það hlutfall var hins vegar hins aðeins um 10,5% árið 2010. Þannig hefur Siglufirði tekist að ná í mun stærra hlutfall erlendra ferðamanna á svæðinu til sín en áður var. Þar skipta Héðinsfjarðargöng og síðan mikil uppbygging í ferðaþjónustu mestu máli, með Sigló Hótel í fararbroddi.
Árið 2004 komu um 86% erlendra gesta á Siglufirði þangað að sumarlagi (júní, júlí og ágúst) en 14% hina níu mánuði ársins. Árið 2018 var hlutfall sumargesta hins vegar komið niður í 58% en vetrargesta upp í 42%.
Samkvæmt Dear Visitors könnun RRF má áætla að 78 þúsund erlendir ferðamenn hafi haft viðkomu á Ólafsfirði árið 2018, 66 þúsund árið 2016, 29 þúsund árið 2013, 14 þúsund árið 2010 og 12 þúsund árið 2004 (sbr. mynd 4.2). Samkvæmt því fjölgaði þeim 6,3 falt frá 2004 til 2018, 5,3 falt frá 2010 til 2018, 2,7 falt frá 2013 til 2018 og um 18% frá 2016 til 2018.
Þetta þýðir að 3,6% erlendra ferðamanna til Íslands með flugi eða ferju árið 2018 höfðu einhverja viðdvöl á Ólafsfirði (5,6% sumargesta og 2,5% gesta utan sumars), 3,6% ferðamanna til Íslands árið 2013 (sama hlutfall) en 3,2% árið 2004. Samkvæmt því hefur Ólafsfjörður haldið hlutdeild sinni í ferðamönnum til Íslands frá árinu 2004.
Sumarmánuðina þrjá er áætlað að erlendum ferðamönnum á Ólafsfirði hafi fjölgað úr tæplega 11 þúsund árið 2004 í 43 þúsund árið 2018, eða fjórfalt. Hins vegar fjölgaði erlendum vetrarferðamönnum þangað 20 falt á sama tímabili, úr 1.700 þús í 35 þúsund.
Þessar niðurstöður þýða jafnframt að 13% þeirra erlendu ferðamanna sem lögðu leið sína í Eyjafjörð árið 2018 komu á Ólafsfjörð. Það hlutfall var hins vegar hins aðeins um 9% árið 2010.
Árið 2004 komu um 86% erlendra gesta á Ólafsfirði þangað að sumarlagi (júní, júlí og ágúst) en 14% hina níu mánuði ársins. Árið 2018 var hlutfall sumargesta hins vegar komið niður í 56% en vetrargesta upp í 44%.