Tæplega 124 þúsund skemmtiferðaskipafarþegar á Akureyri 2016

Fjöldi skemmtiferðaskipa sem heimsækir Akureyri fer vaxandi á hverju ári. Sömuleiðis hefur minni skipum sem hafa viðkomu bæði á Akureyri og í Grímsey fjölgað. Skemmtiferðaskipin hafa mikla þýðingu fyrir afkomu Hafnarsamlags Norðurlands og eru farþegarnir einnig mikilvægir fyrir þá fjölmörgu afþreyingaraðila og ferðaskipuleggjendur sem bjóða upp á ferðir. Í dag er staðan sú að um 60-70% skemmtiferðaskipagesta á Akureyri kaupa skipulagðar ferðir á meðan viðdvöl þeirra á Akureyri stendur. Sá hluti gesta sem ekki fer í skipulagðar ferðir röltir um bæinn, kemur við í Hofi og fær bæklinga, lítur við í verslunum og skoðar áhugaverða staði í bænum. Samkvæmt könnun sem Cruise Iceland lét vinna má áætla að efnahagsleg áhrif þessara skipakoma til Akureyrar og Grímseyjar séu um 1,9 milljarður króna og komur þeirra skapi um 80 heilsársstörf.
Þessi mikli og hraði vöxtur í komum skemmtiferðaskipa hefur gert það nauðsynlegt að sett verði stefna um framtíð móttöku skemmtiferðaskipa. Akureyrarbær og Hafnasamlag Norðurlands vinna að stefnumótuninni og verður hún tilbúin fyrir lok árs 2017.

akureyrarhofn-tolur
Heimild: Akureyri.is